Góðar netvenjur

 

Samskipti á netinu

Einn af frábærum kostum við netið eru tækifærin til samskipta. Hægt er að senda tölvupósta og skyndiskilaboð, ræða málin og lýsa skoðunum í gegnum samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter og eiga samræðu í hljóð og mynd í gegnum Skype, Facetime og önnur áþekk spjallforrit. Auk þess þykir mörgum börnum og ungmennum í dag fátt sjálfsagðara en að birta myndefni af atvikum hversdagsins á miðlum á borð við Instagram, Vine, Snapchat og Air.

Eins og í öðrum samskiptum þarf fólk að gæta þess hvað það segir og bera virðingu fyrir samborgurum sínum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga að það sem eitt sinn er farið á netið getur reynst ómögulegt að taka tilbaka. Þó að maður fjarlægi fljótlega efni sem hefði betur aldrei farið á netið er ekki hægt að treysta því að einhver annar hafi ekki hlaðið það niður eða tekið af því skjámynd.

Það er líka gott að hafa í huga að nokkur hluti samskipta tapast þegar þau eru bara skrifleg. Talið er að stór hluti samskipta eigi sér stað með líkamstjáningu. Þess vegna getur merking tapast þegar bara er um skrifleg skilaboð að ræða, til dæmis getur hæðni, eða létt grín auðveldlega lesist sem argasti dónaskapur eða skilningsleysi. Með því að tileinka okkur tillitsemi, stillingu og varkárni á netinu erum við líklegri til að sneiða hjá ýmsum vandamálum sem ófáir eiga því miður við að stríða. Netorðin 5 eru til þess hugsuð að vera leiðarstef í daglegri netnotkun og veita okkur góðan grunn fyrir betri netmenningu.

Netorðin 5

Netorðin 5 jpeg

1. Allt sem þú gerir á Netinu endurspeglar hver þú ert

Allt sem við gerum og segjum er endurspeglun á því hvernig við hugsum og hvað við sjáum í kring um okkur. Þó aðrir þekki okkur ekki vitum við alltaf sjálf hver við erum. Stundum veljum við að koma fram á Netinu undir dulnefni eða nafnlaust. Það getur stundum verið nauðsynlegt og stundum skemmtilegt, en við getum ekki verið nafnlaus eða undir dulnefni gagnvart okkur sjálfum. Þess vegna viljum við vera sátt við allt sem við gerum og geta litið í eigin barm án þess að líða illa.

2. Góð samskipti eru jafnmikilvæg á netinu og annars staðar

Það er auðvelt að nota Netið til að særa annað fólk. Ljót skrif eða myndbirtingar af öðrum eru ofbeldi gagnvart öðrum og geta valdið mikilli vanlíðan. Þær valda vanlíðan hjá þeim sem verður fyrir því og þær valda líka vanlíðan hjá þeim sem setur slíkt á Netið. Mörgum líður illa og eru með samviskubit vegna þess að þeir hafa sært aðra. Þegar við setjum ljótt efni á Netið um einhvern annan er það opið fyrir alla og það er aldrei hægt að taka það aftur. Hugsum okkur því vel um áður en við segjum eitthvað eða setjum efni á Netið sem getur sært eða meitt aðra manneskju. Komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur.

3. Ekki taka þátt í neinu sem þú veist ekki hvað er

Það er nauðsynlegt að vita alltaf hvað maður er að gera þegar maður tekur þátt í einhverju á Netinu. Það getur verið hættulegt að vera í samskiptum við fólk sem maður þekkir ekki nema í gegn um Netið. Förum varlega þegar við gefum persónulegar upplýsingar um okkur á Netinu. Það getur valdið miklum vandræðum að setja upplýsingar um sig á Netið ef maður veit ekki hver fær upplýsingarnar. Margir hafa fengið vírus sem skemmt hefur tölvuna eða eru í miklum vandræðum með ruslpóst vegna þess að þeir hafa skráð sig inn á vefsíður sem þeir þekkja ekki og vita ekki hverjir halda úti.
Það er líka nauðsynlegt að athuga vel hvort hægt er að treysta upplýsingum sem fengnar eru af Netinu. Athugum hvaðan upplýsingarnar eru og hvort þær eru réttar áður en við notum þær.

4. Mundu að þú skilur eftir þig stafræn spor á netinu

Það er ekkert einkalíf til á Netinu. Allt sem sett er þar inn er opið fyrir alla, alltaf. Ef við viljum ekki að allir sjái hvað við erum að segja eða gera skulum við ekki setja það á Netið. Hver sem er getur skoðað bloggsíður og annað sem við setjum á Netið og auðvelt er að finna vefsíður. Hver sem
er getur líka náð í það efni sem við setjum á Netið og vistað það hjá sér.
Þess vegna þurfum við að hugsa okkur vel um áður en við setjum upplýsingar um okkur eða myndir af okkur eða öðrum á Netið. Þó við tökum þær út af vefsíðunum okkar getur hver sem er náð í þær meðan þær eru inni.

5. Þú berð ábyrgð á því sem þú segir og gerir á Netinu 

Við berum ábyrgð á því sem við segjum og gerum. Það á við um Netið eins og allt annað. Þess vegna þurfum við að geta svarað fyrir allt sem við setjum þar inn. Hægt er að rekja tölvupóst og allar færslur sem settar eru inn á Netsíður. Það er ekki notaleg tilhugsun að þurfa að standa frammi fyrir foreldrum, skólastjórnendum, vinnuveitanda eða jafnvel lögreglunni og þurfa að svara fyrir eitthvað sem við hefðum ekki átt að setja á Netið. Munum líka að lögin í landinu gilda líka um það sem fólk gerir á Netinu.

Netheilræði

Grunnurinn að rafrænu uppeldi er að vera til staðar – kynna sér netnotkun barnanna, ræða opinskátt um hvað se í lagi og hvað ekki og setja mörk. Við þurfum að gera börnunum okkar grein fyrir því að mikilvægt er að fara varlega með persónuupplýsingar og myndefni, að ekki sé eðlilegt að þiggja gjafir frá einhverjum sem þau þekkja einungis í gegn um netið eða senda þeim myndir af sér eða samþykkja að mæla sér mót. Við þurfum að hjálpa þeim að temja sér nærgætni í samskiptum og muna að gjörðir á netinu fela í sér ábyrgð. Hér að neðan er að finna 10 netheilræði sem allir foreldrar ættu að kynna sér og ræða heima fyrir við börn sín.

Netoryggi_720

Birting upplýsinga og myndefnis af börnum

Almenn viðmið um heimasíður skóla, íþróttafélaga og annarra sem koma að æskulýðs- og tómstundastarfi

Algengt er að kennarar og aðrir sem koma að skóla-, íþrótta- og æskulýðsmálum birti myndefni af börnum og ungmennum á netinu. Myndefnið er þá ýmist á opnu eða læstu heimasvæði sem einungis er ætlað foreldrum og forsjáraðilum. Eins má finna á síðum skóla upplýsingar um búsetu, símanúmer og annað sem flokka má undir persónuupplýsingar auk þess sem notkun samfélagsmiðla hefur aukist. Hér er að finna almenn viðmið Heimilis og skóla og SAFT um birtingu myndefnis og meðferð upplýsinga um börn á netinu.

Myndbirtingar

Þegar hugað er að myndbirtingu á opnu svæði, þ.e. myndir sem eru öllum aðgengilegar, er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða mynd af viðburði (s.s. mynd af hópi skólabarna við leik og störf eða íþróttaliði) eða af tilteknum og jafnvel nafngreindum einstaklingi. Alla jafna mega fyrrnefndar myndir vera á opnum svæðum á meðan myndir af einstökum og jafnvel nafngreindum börnum eiga betur heima á læstum svæðum. Skólar geta gert ráð fyrir upplýstu samþykki fyrir myndbirtingu á sínum síðum, þ.e. að foreldrar og forsjáraðilar geti beðið um að engar myndir birtist af sínu barni, t.d. við innritun í skólann. Einnig er vert að huga að því hvaða skilmálar og höfundarréttarákvæði fylgja myndefninu. Hvatt er til varúðar og nærgætni við allar myndbirtingar af börnum á vegum skóla eða annarra aðila í æskulýðs- og tómstundastarfi. Um allar myndbirtingar, hvort sem er á opnu eða læstu svæði, gilda eftirfarandi viðmið: Börn skulu aldrei sýnd á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin eða klæðalítil, vansæl eða í erfiðum aðstæðum.

Viðmið þessi taka m.a. mið af leiðbeinandi áliti sem nálgast má á síðu Persónuverndar.

Aðrar persónuupplýsingar

Skólar og aðrir sem sinna æskulýðs- og tómstundastarfi eru hvattir til að sýna varkárni þegar persónuupplýsingar eru annars vegar og fara ávallt eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bekkjarlistar þar sem fram koma kennitala, heimilisfang, símanúmer og annað er við kemur nemendum eiga að vera á læstu svæði.

Upplýsingamiðlun ef vá ber að garði

Hvað upplýsingamiðlun í hættuástandi varðar þá hvetjum við skólastofnanir og aðra sem vinna með börnum að kynna sér vel leiðbeiningar frá almannavörnum í sínu heimahéraði. T.d. má skoða leiðbeiningar um viðbrögð við röskun á skólastarfi frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og upplýsa foreldrasamfélagið í samræmi við þær.

Notkun samfélagsmiðla

Þar sem íþróttafélög, foreldrar, skólar og aðrir ákveða að notast við samfélagsmiðla til upplýsingamiðlunar er mikilvægt að stuðla að jákvæðum og vönduðum samskiptum og taka skýrt fram að málefni einstakra barna, foreldra, kennara eða þjálfara eru ekki rædd á þeim vettvangi þar sem það getur leitt til illinda og neikvæðs andrúmslofts. Einnig er gott að þeir aðilar sem málið varðar (s.s., þjálfarar, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur) hafi aðgang að hópnum. Rétt er þó að nefna að notkun á samfélagsmiðlum sem safna saman persónuupplýsingum og reknir eru í viðskiptatilgangi (s.s. Facebook) er ekki vel samrýmanleg við  þá persónuvernd sem ung börn í skyldunámi  þurfa og eiga að hafa í rýmum sem notuð eru í skólastarfi.


Hvað persónuupplýsingar (t.d. einkunnir og verk nemenda) og myndir af einstökum börnum varðar þá eiga þær heima á læstu svæði fremur en á samfélagsmiðlum. Þegar valin er boðleið til foreldra, nemenda og annarra iðkenda er mikilvægt að huga að því að skilaboðin berist til allra og að ekki er hægt að skikka börn og foreldra til að nota samfélagsmiðla. Ef  íþróttafélög, skólar eða aðrir ákveða að nota samfélagsmiðla til að miðla upplýsingum til barna er brýnt að virða þau aldurstakmörk sem miðillinn setur, halda foreldrum og forsjáraðilum upplýstum og að kennarar eða þjálfarar hafi ekki óheftan aðgang að upplýsingum og efni sem skjólstæðingar þeirra birta úr daglegu lífi. Hægt er að koma í veg fyrir það t.d. með lokuðum Facebook hóp þar sem meðlimirnir þurfa ekki að hafa fullan aðgang að hvor öðrum til að koma skilaboðum áleiðis.

Höfundarréttur

Það er útbreiddur misskilningur að það efni sem fyrirfinnst á Netinu geti allir notað á eigin vefsíðum, í margmiðlunarefni, í eigin bókum eða auglýsingum.

En þannig er það alls ekki.

Almenna reglan er sú að það efni sem er á netinu er eign höfundar og aðrir mega alls ekki nota það nema með leyfi hans.

Öll verk á Netinu falla undir höfundarréttarlög. Höfundur verksins ræður hvort og hvernig verkið er birt, hvort taka má afrit af verkinu, hvort gera má breytingu á því og hvað borga þarf fyrir að fá aðgang að verkinu.

Þetta felur í sér að það má ekki taka myndir af öðrum vefsíðum og nota á eigin síðu, það má ekki taka texta af vefsíðu og nota á eigin síðu á þess að geta höfundar og jafnvel fá leyfi hjá honum fyrir að nota verkið.

Aftur á móti má alltaf setja krækju, slóð, af eigin vefsíðu yfir á vefsíðu annarra. Og það mánota texta og myndir af öðrum vefsíðum á svipaðan hátt og gert er meðheimildir í ritgerðum, þ.e. aðgreina vel það sem kemur frá öðrum og merkja það höfundi. Á sumum vefsíðum stendur að leyfilegt sé að nota allt efni síðunnar og þá er auðvitað leyfilegt að gera það en oft er beðið um að notandinn setji krækju afsinni síðu yfir á síðuna þar sem hann fann efnið.
Það er almenn kurteisi að verð við þeirri beiðni.

Stundum er óskað eftir að sent sé þakkarbréf tilhöfundar síðunnar ef efni hennar er notað og er sjálfsagt að gera það.Einstaka sinum stendur að ef einhver ætlar að nota efnið á síðunni þá megi leggja inn ákveðna upphæð á reikning eigandans. Eðlilegt er að greiða fyrirnotkun á efni, sérstaklega ef um er að ræða verulega notkun.

Einnig má benda á að til eru myndabankar sem selja myndir til notkunar á netinu gegnvægu gjaldi og er sjálfsagt að nýta sér þjónustu þessara banka.

Í dag er leyfilegt í skólastarfi að afrita texta og myndir úr bókum upp að vissumarki og er miðað við 30%. Ekkert slíkt leyfi er til fyrir Netið en samt má ekki nota efni sem þar er nema með leyfi höfundar og verið er að vinna í því að koma á sambærilegum reglum fyrir rafrænt efni eins og er til fyrir prentað efni sem er notað í skólastarfi.

Það sem veldur vandræðum við að finna viðeigandi umgengnisreglur er m.a. að mjög einfalt er að afrita rafrænt efni á þess að gæði þess minnki, mjög auðvelt er að breyta rafrænu efni og t.d. fjarlægjanafn á höfundi.

Efni á vefsíðu er aðgengilegt hvar sem er í heiminum og höfundurinn hefur enga yfirsýn yfir hver notkunin er. Einnig má nefna að við notkun á vefsíðu getur myndast afrit af henni á tölvu notandans á þess að hann hafi beðið um það eða viti af því. Þegar kemur að tónlist þá gilda sömu reglur, ekki má nota efnið nema meðleyfi höfundar og þar eru oft fleiri en einn handhafi höfundarréttar t.d. lagahöfundur og textahöfundur og jafnvel þarf að fá leyfi útgáfufyrirtækis.

Sama er reyndar upp á teningnum þegar verið er með myndir af listaverkum, þá þarf bæði að fá leyfi hjá þeim sem tók myndina og þeim sem gerði listaverkið.

Síðan má spyrja sig hvort ekki þurfi að fá leyfi hjá öllu því fólki sem fyrir kemur á myndum t.d. á bekkjamynd.

Af ofansögðu má sjá að það er ekki einfalt að umgangast efni á netinu og erum að gera að fara varlega og leita eftir leyfi hjá höfundi texta, mynda og hljóðs og geta alltaf höfundar eins og gert er í heimildaritgerð. Sýnum kurteisi og virðum höfundarrétt.