Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2014

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Póst og fjarskiptastofnun, Menntavísindasvið HÍ og SAFT standa fyrir ráðstefnu um Internetið á alþjóðlega netöryggisdaginn, þann 11. febrúar 2014 við Menntavísindasvið HÍ.

Ekkert þátttökugjald

Skráning á Facebook eða með póst á saft@saft.is

Áhugasamir um þátttöku í málstofum sendi tölvupóst á saft@saft.is

SID2014Logo

Dagskrá

11.40 – 12.00  Skráning

12.00 – 12.15  Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, flytur opnunarávarp og býður gesti velkomna.

12.15 – 12.25  Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flytur ávarp.

12.25 – 12.35  Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður menningar- og menntamálaráðherra, flytur ávarp.

12.35 – 13.00  Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar: Af hverju þarf samráðsvettvang um stefnumótun um málefni internetsins? Vernd barna, miðlalæsi, frelsi og öryggi á internetinu sett í alþjóðlegt samhengi.

13.00 – 13.25  Almar M. Halldórsson, verkefnisstjóri PISA hjá Námsmatsstofnun – Læsi íslenskra nemenda síðastliðinn áratug samkvæmt PISA könnun OECD.

13.25 – 13.40  Bjartur Thorlacius, ungmennaráð SAFT: Tjáning gegn hatri.

13.40 – 14.00 Kaffihlé 

14.00 – 16.00 Málstofur

 • Ábyrgð og vernd Íslendinga á netinu – stofa H201 

Hvernig tryggjum við öryggi fólks á netinu og hvetjum til ábyrgrar notkunar nýrrar tækni? Hvert er hlutverk foreldra, skóla og samfélagsins? Hvaða reglur gilda um Internetið þegar tjáningarfrelsið er annars vegar? Hver er ábyrgur fyrir því efni sem birt er? Hvaða leiðir eru færar fyrir Íslendinga þegar ólöglegt efni og meiðyrði er vistað hjá erlendum aðilum? Hvaða rétt höfum við til tjáningar og til upplýsingaöflunar? Er Ísland eyland, eða þurfum við að taka tillit til löggjafar annarra ríkja? Hvað segja niðurstöður rannsókna um netnotkun Íslendinga?

Málstofustjórar eru Ingimar Karl Helgason, blaðamaður og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdarstjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsjón málstofu Steinunn Pieper, Mannréttindaskrifstofa Ísland og Sólveig Karlsdóttir, Heimili og skóli – Landssamtök foreldra. Meðal þátttakenda verða Klara Ósk Kristinsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs, Ólafur Elínarson, ráðgjafi hjá Capacent, Hrefna Sigurjónsdóttir, Heimili og skóli, Ívar Schram, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, Þórlaug Ágústsdóttir, stjórnmálafræðingur og nýmiðlagúrú og Margrét Júlía Rafnsdóttir, Barnaheill – Save the Children Iceland. Ritari málstofu er Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri SAFT.

 • Varðveisla persónuupplýsinga – stofa H202 

Kröfur um trausta innviði fjarskipta og öryggi fjarskiptakerfa verða stöðugt meiri, í takt við síaukna og fjölbreyttari notkun Internetsins sem vinnutækis, þjónustuleiðar og afþreyingar í daglegu lífi. Á sama tíma steðja að Internetinu fjölbreyttar og síbreytilegar öryggisógnir.   Sterkar kröfur eru því uppi um að efla öryggi notenda, gagna og búnaðar á netinu.  Rætt er um hvaða ábyrgð stjórnvöld, markaðsaðilar og almennir notendur hafa á þessu sviði. Hvert er hlutverk og ábyrgð stjórnvalda og markaðsaðila til að efla öryggi Netsins? Hvernig á að tryggja fjarskiptainnviði á Íslandi. Er öryggi nægjanlegt? Er þörf á frekari vörnum? Hvað er netöryggi gagnvart öryggi fólks, öryggi neta og öryggi gagnasafna sem innihalda persónuupplýsingar.

Málstofustjóri er Arnaldur Axfjörð og Jón Kristinn Ragnarsson. Meðal þátttakenda verða fulltrúi ungmennaráðs SAFT, Hrafnkell V. Gíslasson, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur í netöryggismálum IRN, Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, Hörður H. Helgason, forstjóri Persónuverndar, Bjartur Thorlacius, fulltrúi ungmennaráðs og Ásta Helgadóttir, sérfræðingur í upplýsingaöryggi. Ritari málstofunnar er Anna Margrét Sigurðardóttir, kynningarfulltrúi hjá Póst og fjarskiptastofnun.

 • Hvernig byggjum við upp „stafræna borgaravitund“?   – STOFA H203

Í fyrri hluta málstofunnar (45 mín) verður fjallað um nýjar tegundir læsis og dæmi tekin um þróun erlendis í stefnu og aðgerðum skóla og menntayfirvalda sem tengjast uppbyggingu og eflingu stafrænnar borgaravitundar með nemendum (Sólveig Jakobsdóttir). Þá fjallar Elínborg Siggeirsdóttir um netöryggisfundi með nemendum og foreldrum í Hörðuvallaskóla þar sem kynntar eru hugmyndir um ábyrga netborgara, örugga netnotkun og leiðir til að efla jákvæða sjálfsvitund nemenda á netinu. Að lokum ræðir Salvör Gissurardóttir um miðlun á myndum og myndrænu efni og mikilvæg atriði sem kennarar og nemendur þurfa að hafa í huga varðandi vinsæla myndmiðla sem eru tengdir neti í gegnum síma (t.d. snapchat, vine, Instagram) og lög og vinnureglur varðandi slíka myndræna miðlun.Tekið verður stutt hlé en í síðari hluta málstofunnar (60-70 mín) verða umræður með fiskabúrssniði um málefni sem þörf er á að ræða í þessu samhengi, t.d. nýleg vandamál sem upp hafa komið og tengjast netnotkun skólafólks. Einnig mætti ræða tengd hugtök og þýðingu þeirra á íslensku.

Umsjón með málstofu hafa Sólveig Jakobsdóttir dósent og Salvör Gissurardóttir lektor við Háskóla Íslands ásamt Elínborgu Siggeirsdóttur, umsjónarmanni upplýsingavers Hörðuvallaskóla og formanni 3f. Í umræðuhópi í upphafi verða framsögumenn, Guðný Rós Jónsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs og Almar M. Halldórsson, verkefnisstjóri PISA hjá Námsmatsstofnun. En síðan geta allir sem áhuga hafa tekið þátt í umræðunum.

16.00 – 16.30 Veitingar

Hér má nálgast PDF útgáfu af dagskrá.

SID14_dagskra

BIRTING UPPLÝSINGA OG MYNDEFNIS AF BÖRNUM OG NOTKUN SAMFÉLAGSMIÐLA

Almenn viðmið um heimasíður skóla, íþróttafélaga og annarra sem koma að æskulýðs- og tómstundastarfi

Algengt er að kennarar og aðrir sem koma að skóla-, íþrótta- og æskulýðsmálum birti myndefni af börnum og ungmennum á netinu. Myndefnið er þá ýmist á opnu  eða læstu heimasvæði sem einungis er ætlað foreldrum og forsjáraðilum. Eins má finna á síðum skóla upplýsingar um búsetu, símanúmer og annað sem flokka má undir persónuupplýsingar auk þess sem notkun samfélagsmiðla hefur aukist. Hér er að finna almenn viðmið Heimilis og skóla og SAFT um birtingu myndefnis og meðferð upplýsinga um börn á netinu.

Myndbirtingar

Þegar hugað er að myndbirtingu á opnu svæði, þ.e. myndir sem eru öllum aðgengilegar, er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða mynd af viðburði (s.s. mynd af hópi skólabarna við leik og störf eða íþróttaliði) eða af tilteknum og jafnvel nafngreindum einstaklingi. Alla jafna mega fyrrnefndar myndir vera á opnum svæðum á meðan myndir af einstökum og jafnvel nafngreindum börnum eiga betur heima á læstum svæðum. Skólar geta gert ráð fyrir upplýstu samþykki fyrir myndbirtingu á sínum síðum, þ.e. að foreldrar og forsjáraðilar geti beðið um að engar myndir birtist af sínu barni, t.d. við innritun í skólann. Einnig er vert að huga að því hvaða skilmálar og höfundarréttarákvæði fylgja myndefninu. Hvatt er til varúðar og nærgætni við allar myndbirtingar af börnum á vegum skóla eða annarra aðila í æskulýðs- og tómstundastarfi. Um allar myndbirtingar, hvort sem er á opnu eða læstu svæði, gilda eftirfarandi viðmið: Börn skulu aldrei sýnd á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin eða klæðalítil, vansæl eða í erfiðum aðstæðum.

Viðmið þessi taka m.a. mið af leiðbeinandi áliti sem nálgast má á síðu Persónuverndar.

Aðrar persónuupplýsingar

Skólar og aðrir sem sinna æskulýðs- og tómstundastarfi eru hvattir til að sýna varkárni þegar persónuupplýsingar eru annars vegar og fara ávallt eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bekkjarlistar þar sem fram koma kennitala, heimilisfang, símanúmer og annað er við kemur nemendum eiga að vera á læstu svæði.

Upplýsingamiðlun ef vá ber að garði

Hvað upplýsingamiðlun í hættuástandi varðar þá hvetjum við skólastofnanir og aðra sem vinna með börnum að kynna sér vel leiðbeiningar frá almannavörnum í sínu heimahéraði. T.d. má skoða leiðbeiningar um viðbrögð við röskun á skólastarfi frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og upplýsa foreldrasamfélagið í samræmi við þær.

Notkun samfélagsmiðla

Þar sem íþróttafélög, foreldrar, skólar og aðrir ákveða að notast við samfélagsmiðla til upplýsingamiðlunar er mikilvægt að stuðla að jákvæðum og vönduðum samskiptum og taka skýrt fram að málefni einstakra barna, foreldra, kennara eða þjálfara eru ekki rædd á þeim vettvangi þar sem það getur leitt til illinda og neikvæðs andrúmslofts. Einnig er gott að þeir aðilar sem málið varðar (s.s., þjálfarar, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur) hafi aðgang að hópnum. Rétt er þó að nefna að notkun á samfélagsmiðlum sem safna saman persónuupplýsingum og reknir eru í viðskiptatilgangi (s.s. Facebook) er ekki vel samrýmanleg við  þá persónuvernd sem ung börn í skyldunámi  þurfa og eiga að hafa í rýmum sem notuð eru í skólastarfi.
Hvað persónuupplýsingar (t.d. einkunnir og verk nemenda) og myndir af einstökum börnum varðar þá eiga þær heima á læstu svæði fremur en á samfélagsmiðlum. Þegar valin er boðleið til foreldra, nemenda og annarra iðkenda er mikilvægt að huga að því að skilaboðin berist til allra og að ekki er hægt að skikka börn og foreldra til að nota samfélagsmiðla. Ef íþróttafélög, skólar eða aðrir ákveða að nota samfélagsmiðla til að miðla upplýsingum til barna er brýnt að virða þau aldurstakmörk sem miðillinn setur, halda foreldrum og forsjáraðilum upplýstum og að kennarar eða þjálfarar hafi ekki óheftan aðgang að upplýsingum og efni sem skjólstæðingar þeirra birta úr daglegu lífi. Hægt er að koma í veg fyrir það t.d. með lokuðum Facebook hóp þar sem meðlimirnir þurfa ekki að hafa fullan aðgang að hvor öðrum til að koma skilaboðum áleiðis.

Málþing fjölmiðlanefndar, SAFT og Heimilis og skóla 20. nóvember 2013

Heimili og skóli, SAFT og fjölmiðlanefnd stóðu fyrir málþingi um vernd barna gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum og tölvuleikjum í nóvember. Hérna má nálgast ítarlega greinargerð: http://www.heimiliogskoli.is/2014/01/greinargerd-fra-malthingi-um-vernd-barna/

Málþing fjölmiðlanefndar

Greinargerð frá málþingi um vernd barna

Málþing fjölmiðlanefndar

Þann 20. nóvember sl. stóð fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli og SAFT fyrir málþingi um vernd barna gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum og tölvuleikjum. Málþingið var fræðandi og heppnaðist vel í alla staði. Hér má nálgast ítarlega greinargerð frá málþinginu.

 

Áhættuhegðun Íslenskra barna á netinu: Strákar líklegri en stelpur til að hitta ókunnuga

SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

Áhættuhegðun

 • Hluti SAFT könnunarinnar var tileinkaður áhættu á netinu og voru börnin spurð um ýmsa hegðun sem gæti talist áhættuhegðun s.s. að leita að nýjum vinum á netinu, hitta fólk augliti til auglitis sem þau kynntust fyrst á netinu og fara inn á vefsíður með ólöglegu efni eða hættulegu athæfi.
 • Nokkuð algengt var að börnin leituðu að nýjum vinum á netinu en ríflega helmingur barnanna eða 52,7%, hafði einhvern tímann á sl. 12 mánuðum leitað að nýjum vinum á netinu. Tæplega 12% höfðu leitað að nýjum vinum tvisvar í viku eða oftar.
 • Samtals hafði naumlega þriðjungur barna og unglinga á sl. 12 mánuðum bætt við/addað vinum sem þau höfðu aldrei hitt augliti til auglitis. Rúm 4% höfðu samþykkt nýja vini tvisvar í viku eða oftar á sl. 12 mánuðum.
 • Rúmlega 22% höfðu einhvern tímann á sl. 12 mánuðum haft samband við einhvern sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu. Rúm 5% höfðu gert það tvisvar í viku eða oftar.
 • Samanborið við fyrri SAFT kannanir höfðu mun færri börn látið sem þau væru einhver önnur en þau raunverulegu eru, sent mynd eða vídeó af sér til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu eða sent persónulegar upplýsingar til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu.
 • Rúm 10% höfðu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum látið sem þau væru önnur en þau raunverulega eru. Tæplega 9% höfðu sent mynd eða vídeó af sér til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu og slétt 8% höfðu sent persónulegar upplýsingar t.d. fullt nafn, heimilisfang eða símanúmer til einhvers sem þau höfðu aldrei hitt augliti til auglitis.

Strákar líklegri en stelpur til að hafa hitt einhvern augliti til auglitis sem þeir kynntust fyrst á netinu

 • Rúm 18% barna og unglinga höfðu einhvern tíma hitt einhvern í raun og veru sem þau höfðu fyrst kynnst á netinu. Hlutfallið er örlítið lægra en árið 2009 þegar tæp 21% barna hafði hitt einhvern í raun og veru sem þau kynntust fyrst á netinu.
 • Annars má segja að hlutfall barna og unglinga sem hafa hitt einhvern sem þau kynntust fyrst á netinu hafi haldist nokkuð stöðugt í kringum 20% frá árinu 2003 þegar fyrsta SAFT mælingin fór fram.
 • Strákar eru líklegri en stelpur til að hafa hitt einhvern í raun og veru sem þeir kynntust fyrst á netinu en tæplega 23% stráka sögðust hafa gert það á móti 14% stelpna. Í könnuninni kom í ljós að foreldrar stúlkna eru líklegri en foreldrar drengja til að setja reglur um samskipti við ókunnuga á netinu.
 • Börnin eru líklegri til að hafa hitt einhvern í raun og veru sem þau kynntust fyrst á netinu eftir því sem þau eru eldri. Tæplega 32% 10. bekkinga sögðust hafa hitt einhvern í eigin persónu sem þau kynntust fyrst á netinu en 6% 4. bekkinga.

Hefur þú orðið fyrir því að einhver sem kynnti sig sem barn á netinu reyndist vera fullorðinn einstaklingur? – Svör barna og unglinga sem höfðu einhvern tíma hitt einhvern í raun og veru sem þau kynntust fyrst á netinu  

 • Þau börn sem höfðu hitt einhvern í raun og veru sem þau kynntust fyrst á netinu voru í kjölfarið spurð hvort þau hefðu orðið fyrir því að einhver sem kynnti sig sem barn á netinu reyndist vera fullorðinn einstaklingur. Rúm 6% þeirra barna sem höfðu hitt einhvern í raun og veru, sem þau kynntust fyrst á netinu, höfðu orðið fyrir því að einhver sem kynnti sig sem barn reyndist vera fullorðinn einstaklingur. Það gerir innan við 1% af heildarfjölda allra barna og unglinga sem tóku þátt í könnuninni.
 • Þegar litið er til þróunar frá fyrri mælingum hefur þeim heldur fækkað frá 2009 sem hafa orðið fyrir því að einhver sem kynnti sig sem barn á netinu reyndist vera fullorðinn einstaklingur.

Hefur barnið þitt á síðastliðnum 12 mánuðum verið beðið eða beitt þrýstingi um að senda myndir af sér nöktu eða í ögrandi stellingum á netinu? – Svör foreldrar barna í 6.-10. bekk. – Hefur þú á síðastliðnum 12 mánuðum verið beðin/n eða beitt/ur þrýstingi um að senda myndir af þér nöktum/nakinni eða í ögrandi stellingum á netinu? – Svör barna í 6.-10. bekk

 • Þegar foreldrar voru spurðir hvort barnið hafi verið beðið, eða beitt þrýstingi, um að senda mynd af sér nöktu eða í ögrandi stellingum á sl. 12 mánuðum svaraði aðeins 1 af hverjum 100 játandi.
 • Þegar börnin voru hins vegar spurð hvort þau hefðu verið beðin eða beitt þrýstingi um að senda myndir af sér nöktu, svöruðu tæplega 7 af hverjum 100 játandi.

Stelpur líklegri en strákar til að hafa verið beðnar að senda mynd af sér nöktum eða í ögrandi stellingum

 • Stelpur voru líklegri til að hafa verið beðnar að senda mynd af sér nöktum eða í ögrandi stellingum en strákar. Tæplega 11% stelpna svöruðu spurningunni játandi en aðeins 2,5% stráka.
 • Að sama skapi voru eldri börn mun líklegri til að hafa verið beðin um að senda mynd af sér nöktum eða í ögrandi stellingum en yngri börn. Ríflega 14% 10. bekkinga sögðust hafa verið beðin um slíkt en innan við 1% barna í 6. og 7. bekk.
 • Þegar börnin voru spurð hvort þau hefðu sent mynd af sér í ögrandi stellingum eða hálfnöktum til einhvers ákveðins viðtakanda á netinu svöruðu 2% barna í 6.- 10. bekk spurningunni játandi.
 • Rétt rúmlega 1% barna í 6.-10. bekk hafði póstað/sett inn á netið mynd af sér í ögrandi stellingu eða hálf nöktu.

Eldri börn eru líklegri en yngri börn til að fara inn á vefsíður með efni sem hvetur til áhættuhegðunar

 • Börnin voru að lokum spurð hvort þau hefðu farið inn á vefsíður þar sem rætt var um reynslu af því að taka inn eiturlyf, rætt með hatursfullum hætti í garð ákveðinna hópa eða einstaklinga eða rætt um leiðir til þess að verða mjög grannur.
 • Slétt 5% barna í 6.- 10.bekk höfðu á sl. 12 mánuðum farið inn á vefsíður þar sem reynsla af því að taka inn eiturlyf var rædd og voru 10. bekkingar töluvert líklegri til þess en börn í yngri bekkjum.
 • Rúmlega 7% barna í 6.-10. bekki höfðu á sl. mánuðum farið inn a vefsíður með hatursfullum eða andstyggilegum skilaboðum í garð ákveðinna hópa eða einstaklinga, og eru elstu börnin líklegri til þess en yngri börn.
 • Slétt 9% barna í 6.-10. bekk höfðu á sl. 12 mánuðum farið inn á vefsíður þar sem ræddar voru leiðir til þess að verða mjög grannur (t.d. fjallað um átraskanir eins og anorexíu eða lotugræðgi/búlemíu). Stelpur voru líklegri en strákar til að hafa farið inn á slíkar vefsíður en 12% stelpna höfðu gert það á móti 5% stráka. Jafnframt voru eldri börn líklegri en yngri börn til að hafa farið inn á slíkar vefsíður.

 

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali.

 

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100


[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland. SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.

 

Íslensk börn efast um upplýsingar á netinu

SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

3 af hverjum 10 telja sig vita meira um netið en foreldrarnir

 • Þegar íslensk börn í 4.-10. bekk voru spurð hvort þau teldu foreldra sína vita meira, minna eða jafnmikið um netið og þau sjálf kom í ljós að 34% töldu foreldra  sína vita meira um netið en þau sjálf og tæp 36% töldu þá vita nokkurn veginn jafnmikið um netið og þau sjálf.
 • Hins vegar töldu ríflega 3 af hverjum 10 sig vita meira um netið en foreldrar sínir og hækkaði það hlutfall eftir aldri. Þannig töldu tæplega 55% barna í 10. bekk sig vita meira um netið en foreldrar sínir á meðan sambærilegt hlutfall hjá 4. bekkingum var 9%.
 • Hlutfallslega fleiri strákar en stelpur töldu sig vita meira um netið en foreldrar sínir.

Mikill meirihluti telur að einungis sumar upplýsingar á netinu séu réttar og hægt að treysta þeim

 • Þegar börnin voru spurð hve mikið af upplýsingum á netinu þau teldu að væru réttar og hægt að treysta þeim kom í ljós að rúmlega 3 af hverjum 4 töldu að einungis sumar upplýsingar á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim. Um 19% töldu að flestar upplýsingar á netinu væru áreiðanlegar og rétt innan 4% að engar upplýsingar á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim.
 • Í kjölfarið voru börnin spurð hvort þau gerðu stundum eitthvað til að athuga hvort þær upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru áreiðanlegar. Tæplega 14% sögðust oft athuga hvort upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim. Tæp 29% sögðust stundum athuga það og aðeins fleiri eða 31% sögðust sjaldan athuga það. Ríflega fjórðungur sagðist hins vegar aldrei athuga hvort upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim.
 • Ef litið er til þróunar frá fyrri mælingum má sjá að hlutfall þeirra barna sem telja að einungis sumar upplýsingar á netinu séu réttar hefur aukist. Árið 2003 var hlutfall þeirra tæplega 57% en nú er hlutfallið 76%.

Stelpur líklegri en strákar til að hafa áhyggjur af því að einhver sem þær þekki ekki hafi samband við þær á netinu   

 • Þegar börnin voru spurð um meginástæður þess að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu sögðust flest, eða ríflega 67%, hafa áhyggjur af því að einhver sem þau þekktu ekki myndi hafa samband við þau.
 • Nánast jafn mörg börn sögðu að ástæðan fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu væri sú að þau vissu ekki hver myndi nota upplýsingarnar. Ríflega 58% sögðu foreldra sína hafa sagt sér að gera það ekki og 34% voru hrædd um að fá tölvuvírus.
 • Stelpur höfðu frekar en strákar áhyggjur af því að einhver sem þær þekktu ekki hefði samband við þær og sömuleiðis að þær vissu ekki hver myndi nota upplýsingarnar. Strákar voru hins vegar líklegri en stelpur til að nefna áhyggjur af því að fá tölvuvírus sem ástæðu fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu.
 • Yngri börn sögðu frekar en eldri börn að meginástæðan fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu væri að foreldrar þeirra hefðu sagt sér að gera það ekki.

3 af hverjum 4 höfðu heyrt ráðleggingar um að ekki mætti hlaða niður ólöglegu efni á netinu

 • Spurð að því hvaða ráðleggingar um öryggi á netinu þau hefðu heyrt um nefndu flest börnin , eða 87%, að hitta aldrei ókunnuga. Tæplega 81% sagðist hafa heyrt að það mætti aldrei gefa upp heimilisfang. Tæplega 78% höfðu heyrt ráðleggingar um að hrella ekki aðra eða segja andstyggilega hluti um aðra og álíka margir nefndu að fara ekki inn á klámsíður/síður fyrir fullorðna.
 • Tæplega 75% sögðust hafa heyrt að þau mættu ekki hlaða niður ólöglegu efni á netinu og 72% að þau mættu ekki svara ljótum skilaboðum á netinu.
 • Töluvert færri, eða tæplega 41% sagðist hafa heyrt að það mætti aldrei gefa upp netfangið sitt, 34% að þau mættu aldrei gefa upp nafn sitt og 34% að þau ættu ekki að hlaða niður efni. Tæplega 24% sögðust hafa heyrt að þau mættu ekki setja inn mynd af sér.
 • Innan við 5% höfðu ekki heyrt neinar náðleggingar um öryggi á netinu.

Almennt séð, telur þú að barn þitt hafi lært að verja einkalíf sitt á netinu? – Svör foreldra

 • Þegar foreldrar voru spurðir hvort þeir teldu barnið sitt hafa lært að verja einkalíf sitt á netinu sögðu tæp 30% já, og naumlega 62% svöruðu já, að vissu leyti. Tæplega 9% svöruðu neitandi. Marktækur munur var á svörum foreldra eftir aldri barna. Foreldrar eldri barna voru líklegri en foreldrar yngri barna til að segja að barnið hafi lært að verja einkalíf sitt á netinu.

 

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali.

 

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100

[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.

 

TÖLUVERÐUR MUNUR Á SVÖRUM BARNA OG FORELDRA

SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

Foreldrar telja sig ræða meira við börn sín um öryggi á netinu en börnin gefa til kynna

 • Hluti SAFT könnunarinnar er tileinkaður eftirliti foreldra með netnotkun. Sambærilegar spurningar voru lagðar fyrir börn og foreldra og munur á svörum greindur.
 • Meðal þess sem spurt var um var hvort foreldrar tali við börnin sín um það sem þau gera á netinu, hvort foreldrar líti til þeirra þegar þau eru á netinu og hvort þau sitji hjá þeim þegar þau eru á netinu.
 • Töluverður munur var á svörum barna og foreldra þegar kom að öllum þessum þáttum. Samkvæmt svörum foreldra töluðu þeir mun oftar við börnin sín um það sem þau gera á netinu en svör barnanna gáfu til kynna. Þannig sögðust naumlega 47% foreldra tala oft við börn sín um það sem þau gera á netinu á móti 16,2% samkvæmt svörum barnanna.
 • Það sama var uppi á teningnum þegar kom að því að líta til barnanna og sitja hjá þeim þegar þau voru á netinu.
 • Marktækur munur er á svörum barnanna eftir kyni en fleiri stelpur en strákar segja að foreldrar sínir tali við sig um netið, líti til sín eða sitji hjá sér þegar þau eru á netinu. Í þessu samhengi er athyglisvert að einnig kom fram í könnuninni að stúlkur eru líklegri en strákar til að vera með öryggisstillingar í lagi.

Foreldrar drengja líklegri til að nota búnað til að hindra aðgang að vefsvæðum

 • Þegar kom að því að nota  búnað eða þjónustu til að hindra aðgang að ákveðnum vefsvæðum þá sögðust um 37% foreldra nota slíkan búnað. Tæplega 30% barna sögðu foreldra sína nota slíkan búnað oft/stundum.
 • Foreldrar stráka eru líklegri en foreldrar stelpna til að nota slíkan hugbúnað, bæði samkvæmt svörum foreldra og barna.

Meirihluti foreldra segist stundum athuga tölvupósta og skyndiskilboð barna sinna   

 • Tæplega 83% foreldra sögðust stundum athuga prófíl barnsins á samskiptasíðum. Þegar börnin voru spurð sambærilegrar spurningar sagði 71% barna foreldra sína athuga prófíl þeirra á samskiptasíðum.
 • Ríflega 76% foreldra sögðust stundum athuga hvaða vini barnið samþykki á samskiptasíðum en 52% barna sögðu foreldra sína athuga hvaða vini þau samþykki. Tæplega 65% foreldra  sögðust stundum athuga hvaða vefsíður barnið heimsæki en um 44% barna sögðu foreldra sína athuga hvaða vefsíður þau heimsæki. Ríflega helmingur foreldra, eða 53%, sagðist stundum athuga tölvupósta eða skyndiskilboð sem barnið skrifaði eða fékk sent. Rúm 23% barna sögðu hins vegar að foreldrar sínir athugi tölvupósta eða skyndiskilaboð sem þau hafi skrifað eða fengið.
 • Svör barnanna benda til þess að foreldrar athugi í meira mæli hvaða vefsíður strákar heimsæki en hvaða vefsíður stelpur heimsæki. Eins benda svör barnanna til þess að foreldrar athugi  í meira mæli prófíl stelpna en stráka á samskiptasíðum og hvaða vini þær samþykki. Þessi munur eftir kyni barns kemur þó ekki fram þegar rýnt er í svör foreldra. Yngri börn eru líklegri en eldri börn til að segja að foreldrar sínir athugi alla þá þætti sem spurt var um nema prófíl á samskiptasíðum en þar kom ekki fram marktækur munur á svörum eftir aldri barns.

Tæplega fimmtungur segist ekki mega hlaða niður tónlist eða kvikmyndum af netinu

 • Þegar börn voru spurð hvaða reglur gildi um netnotkun þeirra sögðu flest að þau mættu ekki segja eitthvað særandi um einhvern/við einhvern  (75,8%), að þau mættu ekki hitta einhvern sem þau þekktu bara af netinu (70,3%), að þau mættu ekki nota pening/kreditkort í fjárhættuspil (65,9%) og að þau mættu ekki tala við ókunnuga á netinu (64%). Tæplega 62% sögðust ekki mega kaupa hluti og ríflega helmingur sagðist ekki mega heimsækja viss vefsvæði.
 • Í ljósi umræðna um tölvu- og netfíkn vekur athygli að tæplega 31% barna sagði að það giltu reglur um hversu löngum tíma þau eyddu á netinu. Rúmlega 19% sögðu að þau mættu ekki hlaða niður tónlist eða kvikmyndum af netinu. Þegar kom að því að vera með prófíl á samskiptasíðum eins og Facebook sögðust rúm 13% ekki mega vera með eigin prófíl á samskiptasíðu. Í 4. bekk var hlutfall þeirra sem ekki máttu vera með prófíl 43% og í 5. bekk 34%. Hjá börnum í 7. bekk og eldri máttu nánast allir vera með prófíl á Facebook.

 

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali.

 

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100


[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.

 

Meirihluti barna í 4.-10. bekk á snjallsíma

SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

Meirihluti íslenskra barna í 4.-10. bekk á snjallsíma

 • Meginviðfangsefni SAFT könnunarinnar er netnotkun íslenskra barna og unglinga. Þó eru nokkrar spurningar tileinkaðar farsíma-/snjallsímanotkun enda hefur netnotkun að hluta færst yfir í símana með tilkomu nýrrar tækni.
 • Börnin voru spurð hvort þau ættu farsíma og beðin um að tilgreina hvort um væri að ræða snjallsíma eða hefðbundinn farsíma. Samtals sögðust tæplega 96% íslenskra barna og unglinga eiga annað hvort farsíma eða snjallsíma. Ríflega helmingur eða 51,2% sagðist eiga snjallsíma og 41% sögðust eiga farsíma. Tæp 4% áttu síma en tilgreindu ekki hvort um væri að ræða snjallsíma eða ekki.
 • Fleiri eiga farsíma/snjallsíma í dag en 2009 þegar síðasta SAFT könnun fór fram en þá sögðust tæp 88% eiga farsíma. Árið 2007 sögðust rúm 86% eiga farsíma.
 • Börnin eru líklegri til að eiga snjallsíma eftir því þau eru eldri. Í 10. bekk sögðust 66% eiga snjallsíma en í 4. bekk sögðust 26% eiga snjallsíma.

Að meðaltali eru börn 8,9 ára þegar þau eignast fyrsta farsímann

 • Þau börn sem áttu farsíma voru spurð áfram hversu gömul þau voru þegar þau eignuðust sinn fyrsta farsíma. Meðalaldur barnanna þegar þau eignuðust sinn fyrsta síma var 8,9 ár sem er nánast engin breyting frá síðustu SAFT könnun árið 2009.
 • Samkvæmt svörum foreldra eru íslensk börn tæplega einu ári eldri þegar þau eignast sinn fyrsta síma eða að meðaltali 9,7 ára.

Tæplega 39% barna sem eiga farsíma nota símann til að fara á samfélagsmiðla

 • Börnin notuðu símann mest til að tala í (91,9%) og senda/taka á móti SMS (77,1%). Ríflega helmingur notaði símann til að hlusta á tónlist  og um 42% til að spila tölvuleiki. Rúmlega 41% notaði símann til að hlaða niður ókeypis smáforritum/öppum og tæp 39% til að fara á samfélagsmiðla eins og Facebook/Instagram. Tæplega þriðjungur notaði símann til að fara á netið í öðrum tilgangi og aðeins færri, eða tæp 32%, til að horfa á myndbönd t.d. á Youtube.
 • Ríflega fimmtungur barnanna sagðist nota símann til að senda eða taka á móti myndum milli síma og tæplega 17% til að setja myndir inn á netið. Tæplega 7% nota símann til að kaupa smáforrit/öpp og rúm 6% til að kaupa hringitóna og bakgrunna.

Engar reglur gilda um farsímanotkun tæplega 30% þeirra barna sem eiga farsíma

 • Þau börn sem áttu farsíma voru spurð áfram hvort þau fylgdu einhverjum reglum við farsímanotkun. Flestir, eða naumlega 53%, sögðust ekki mega kaupa neitt í gegnum farsímann. Rúm 48% sögðust ekki mega senda sms/skilaboð með óviðeigandi innihaldi.
 • Ríflega 29% sögðust ekki mega taka myndir af öðrum án samþykkis, rúm 24% sögðu að það giltu ákveðnar reglur um það hversu hárri upphæð þau mættu eyða í símanotkun. Rúmlega 15% sögðust ekki mega taka símann með sér í skólann og rúm 8% sögðu að það giltu reglur um hversu lengi þau mættu tala.
 • Engar reglur gilda um farsímanotkun tæplega 30% þeirra barna sem eiga farsíma. Líklegra er að engar reglur gildi um farsímanotkun eftir því sem börnin verða eldri.
 • Ágætt samræmi er á milli svara barna og foreldra þegar kemur að reglum við farsímanotkun. Mesta misræmið er á svörum þeirra þegar kemur að reglum um hversu hárri upphæð þau mega eyða í símanotkun og því hvort þau megi taka símann með sér í skólann. Í báðum tilfellum er hærra hlutfall foreldra en barna sem segir að þessar reglur gildi um farsímanotkun barnanna.

Um 5% íslenskra barna og unglinga sögðust hafa orðið fyrir einelti í gegnum farsíma

 • Rétt rúm 3% íslenskra barna og unglinga sem spurð voru sögðust hafa sent skilaboð, texta eða mynd í gegnum farsíma sem var andstyggileg í garð annars einstaklings. Þegar spurt var hvort þau hafi strítt einhverjum eða sýnt einhverjum yfirgang í gegnum farsímann svöruðu 8,7% því játandi árið 2009. Því virðast færri senda ljót skilaboð eða myndir en áður eða þá að færri viðurkenna slíka hegðun.
 • Rétt rúmlega 5% íslenskra barna og unglinga sögðust hafa orðið fyrir einelti í gegnum farsíma, þ.e. verið strítt, áreitt, ógnað eða þau skilin útundan. Þar af sagðist innan við 1% hafa orðið fyrir því einu sinni í mánuði eða oftar. Í öllum 25 þátttökulöndum EUKidsOnline könnunarinnar í heild var hlutfall þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir einelti í gegnum farsíma 3%.

 

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali.

 

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100


[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.

 

FÁÐU JÁ! – Auðveldara að tala um kynlíf eftir myndina

SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

Ísland er aðili að samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum. Frá því í nóvember 2011 hefur verkefnisstjórn með fulltrúum úr innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti unnið að vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í samræmi við ákvæði í samningnum.  Fáðu já! (sjá http://faduja.is/) er eitt þeirra verkefna sem  Vitundarvakning hefur látið gera.  Fáðu já! er 20 mínútna stuttmynd sem er ætlað að skýra mörkin milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Myndin er gerð með aldurshópinn 15 – 18 ára í huga. Hún var frumsýnd  í janúar 2013 í velflestum grunn- og framhaldsskólum landsins. Í SAFT könnuninni voru 10. bekkingar beðnir um að meta myndina Fáðu Já! auk þess sem reynt var að leggja mat á áhrifamátt hennar með nokkrum spurningum.

Miklum meirihluta 10. bekkinga finnst myndin Fáðu Já! áhugaverð

 • Tæplega 95% barna í 10. bekk höfðu séð Fáðu já!
 • Miklum meirihluta þeirra sem séð höfðu myndina Fáðu já! fannst hún áhugaverð. Rúmlega 77% þeirra gáfu myndinni einkunn á bilinu 8-10 , á kvarðanum 1-10 þar sem 1 þýddi alls ekki áhugaverð og 10 mjög áhugaverð. Fimmtungur gaf myndinni einkunn á bilinu 5-7 og tæpum 3% fannst myndin alls ekki áhugaverð og gáfu henni einkunnina 1.
 • Tæplega 66% þeirra barna sem séð höfðu Fáðu já! fannst þau skilja betur, eftir að hafa séð myndina, muninn á kynlífi í raunveruleikanum og kynlífi sem sýnt er í kvikmyndum og klámi.  Rúmlega 26% fannst þau skilja þennan mun mikið betur og tæplega 40% nokkuð betur en áður en þau sáu myndina. Sléttum 34% fannst myndin ekki breyta neinu þar um.
 • Fleirum, eða rúmlega 70% þeirra barna sem séð höfðu myndina , fannst þau skilja betur hvað það þýðir að fá samþykki fyrir kynlífi eftir að hafa séð myndina. Um 24% finnst þau skilja það mikið betur og tæplega 47% nokkuð betur. Tæplega 3 af  hverjum 10 fannst myndin ekki breyta neinu varðandi skilning þeirra á þessu.

44% halda að það verði auðveldara að tala um kynlíf við þann sem þau langar að stunda kynlíf með eftir að þau sáu Fáðu Já!

Börnin voru að lokum spurð hvort þau héldu að það yrði auðveldara eða erfiðara en áður að tala um kynlíf við aðra eftir að þau sáu myndina Fáðu já!

 • Rúm 44% héldu að það yrði auðveldara en áður að tala um kynlíf við þann sem þau langar að stunda kynlíf með en 55% héldu að Fáðu já! breytti engu þar um.
 • Fleiri strákar en stelpur héldu að það yrði auðveldara en áður að tala um kynlíf við þann sem þá langar að stunda kynlíf með eftir að þeir sáu myndina.
 • Tæplega 24% héldu að það yrði auðveldara en áður að tala um kynlíf við kennara og naumlega 75% að myndin myndi ekki breyta neinu þar um.
 • Slétt 19% héldu að það yrði auðveldara en áður að tala um kynlíf við foreldra sína en ríflega 79% töldu að myndin myndi ekki breyta neinu hvað það varðar.

Í október 2013 gaf SAFT út viðbótarnámsefni tengt Fáðu Já! Um er að ræða þrjú sjálfspróf, sem snerta ýmis viðfangsefni stuttmyndarinnar. Eitt prófið fjallar um Internetið og mikilvægi þess að horfa gagnrýnum augum á birtingarmyndir kynjanna á netinu. Þótt netið sé heill heimur af upplýsingum gefur það ekki alltaf rétta mynd af raunveruleikanum og því ber að umgangast það af ábyrgð og varúð. Annað próf fjallar um klám og mikilvægi þess að skilja að það endurspeglar ekki kynlíf eins og vænta má í raunveruleikanum. Sumt klám er í raun ofbeldisefni og hverjum smelli fylgir ábyrgð. Þriðja prófið fjallar um kynlíf og mikilvægi þess að fá já. Samþykki er grundvallaratriði í kynlífi, burtséð frá kyni og kynhneigð þátttakenda. Einnig er fjallað um getnaðarvarnir og tilfinningatengsl.

Sjálfsprófunum er ætlað að höfða til unglinga á efsta stigi grunnskóla og verða aðgengileg á heimasíðu Fáðu Já! Höfundur sjálfsprófanna er Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem skrifaði handritið að Fáðu já!. Þetta nýja fræðsluefni var framlag SAFT í samkeppni INSAFE á Möltu nýverið um besta kennsluefnið um jákvæða og örugga netnotkun og var þar valið besta efnið í sínum flokki. Þess má geta að myndin Fáðu Já! hlaut viðurkenningu í sams konar samkeppni hjá INSAFE í Tallinn fyrr á þessu ári og á síðasta ári hlutu SAFT- lestrarbókin Rusleyjan og leikritið Heimkoman einnig viðurkenningu í Búdapest.

 

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali.

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100

 

Nánari upplýsingar um Fáðu Já!:

 • Jóna Pálsdóttir, deildarstjóri, Mennta- og menningarmálaráðuneytið (jona.palsdottir@mrn.is)
 • Þórdís Elva Þorvaldsdóttir (thordiselva@gmail.com)
 • Brynhildur Björnsdóttir (brynbj@gmail.com)

[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.

 

AÐGENGI BARNA OG UNGLINGA AÐ KLÁMI Á NETINU

14. nóvember 2013

strákar eru mun líklegri en stelpur til þess að fara viljandi inn á vefsíður með klámi

 SAFT[1] stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

 • Í SAFT könnuninni voru nokkrar spurningar um aðgengi barna og unglinga að klámi. Öll börn og unglingar í könnuninni voru spurð hvort þau hefðu óvart farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi á sl. 12 mánuðum en að auki voru þátttakendur í 6.-10. bekk spurðir hvort þeir hefðu viljandi farið inn á slíkar vefsíður auk annarra spurninga því tengt. Í ljós kom að tæplega 36% íslenskra barna höfðu ýmist óvart eða viljandi farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi. Tæp 29% barna og unglinga í 4.-10. bekk höfðu óvart farið inn á slíkar vefsíður. Tæp 24% barna í 6.-10. bekk höfðu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á slíkar vefsíður. Þar af fóru 15% tvisvar í mánuði eða oftar.
 • Strákar eru mun líklegri en stelpur til þess að hafa farið viljandi inn á vefsíður með klámi en alls höfðu 38% stráka einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn vefsíðu með klámi, og 27% þeirra tvisvar í mánuði eða oftar.  Um 11% stelpna höfðu hins vegar einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á vefsíðu með klámi.  Eftir því sem börn eru eldri er líklegra að þau hafi farið viljandi inn á slíkar vefsíður. Þegar litið er til nágrannalanda okkar erum við ekki fjarri þeim. Í Noregi höfðu 34% barna og unglinga séð kynferðislegt efni á netinu á sl. 12 mánuðum, í Danmörku er hlutfallið 29% og í Svíþjóð 26%.
 • Þegar þau börn sem höfðu farið á vefsíður sem sýndu myndir eða myndbönd af nöktu fólki/klámi voru spurð hvar á netinu þau hefðu séð slíkt efni svöruðu flestir á klámsíðu. Næst algengast var að myndir birtust skyndilega á skjánum (pop-up) og þar á eftir komu samskiptasíður og Youtube.
 • Börn í 6.- 10. bekk voru einnig spurð hvort þeim hefði á síðastliðnum 12 mánuðum verið sent kynferðislegt efni (skilaboð, mynd eða myndband) á netinu sem þau kærðu sig ekki um.  Tæplega 14% svöruðu því játandi og var líklegra að eldri börnum hefði verið sent  slíkt efni á netinu en þeim yngri. Þegar foreldrar voru spurðir hvort barnið þeirra hefði séð eða fengið sent kynferðislegt efni á netinu á sl. 12 mánuðum svöruðu tæplega 1 af hverjum 10 því játandi.
 • Rétt innan við 5% barna í 6.-10. bekk hafði verið sent  klám á netinu frá einhverjum sem þau höfðu bara hitt á netinu. Þegar svörin eru greind eftir aldri má greina skýran mun. Tæplega 12% barna í 10. bekk hafði verið sent klám á netinu frá einhverjum sem þau höfðu bara hitt á netinu. Sambærilegt hlutfall meðal barna í 7. bekk var hins vegar 3% og enginn 6. bekkingur hafði orðið fyrir þessu.

Nánari upplýsingar í texta og myndum í meðfylgjandi PDF skjali

Nánari upplýsingar um SAFT könnunina veita:

 • Guðberg K. Jónsson, verkefnisstjóri SAFT (gudberg@saft.is) s. 516 0100
 • Jóna Karen Sverrisdóttir, Capacent Gallup (jona.sverrisdottir@capacent.is) s. 540 1000
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla (hrefna@heimiliogskoli.is) s. 516 0100


[1] SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. Nánari upplýsingar á www.saft.is.