Facebook fundar með fulltrúum SAFT verkefnisins

 

Fb_fundur

SAFT verkefnið var upphaflega hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun en þeirri áætlun lauk árið 2014. Verkefnið er nú hluti af netöryggishluta samgönguáætlunar Evrópusambandsins og er styrkt af ESB og íslenskum stjórnvöldum. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar.

Facebook hefur áhuga á að kynnast því forvarnarstarfi sem unnið er í netöryggismálum á Íslandi og einnig að heyra hverjar eru helstu áskoranir þegar kemur að öryggi á netinu og á Facebook. Facebook er í dag langvinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi og eru Íslendingar einir af helstu notendum miðilsins þegar horft er á hlutfall íbúa. Fulltrúar þeirra aðila sem vinna saman að SAFT verkefninu sögðu á fundinum frá sínu starfi og ræddu helstu áskoranir  en SAFT verkefnið samanstendur af forvarnarhluta, hjálparlínu og neyðarlínu. Einnig var fulltrúi úr ungmennaráði SAFT viðstaddur og lýsti reynslu ungmenna. Christine sagði frá starfi Facebook og stefnu og þeim möguleikum sem í boði eru þegar kemur að notkun miðilsins, auknu öryggi og betri upplifun, en ýmsar nýjungar eru nú í boði.

Flest lönd glíma við svipaðar áskoranir þegar kemur að netöryggi; s.s.: einelti á netinu, hatursorðræðu, falska prófíla og auðkennastuld, vírusa og óviðeigandi efni. Einnig kom fram að mikilvægt er að geta tilkynnt á auðveldan hátt um óviðeigandi eða ólöglegt efni og skiptir þá máli að vera í góðu sambandi við fyrirtæki á borð við Facebook sem nær til um 1,3 milljarða manna. Mikilvægt er að tilkynna um óæskilegt framferði á Facebook og gera það á skýran hátt. Þannig er líklegt að fyrirtækið geti brugðist hratt og vel við. SAFT verkefnið hefur nú þegar tengilið hjá Facebook sem tekur við ábendingum og athugasemdum frá SAFT en fundurinn í dag treysti enn frekar undirstöður þeirrar samvinnu auk þess sem ræddar voru leiðir í hvernig Facebook getur stutt við starf verkefna á borð við SAFT og sýnt þannig samfélagslega ábyrgð.

Myndatexti: Fulltrúar SAFT verkefnisins áttu góðan fund með fulltrúa Facebook í höfuðstöðvum Heimilis og skóla. Á myndinni eru frá vinstri: Loftur Kristjánsson frá Ríkislögreglustjóra, Þóra Jónsdóttir frá Barnaheillum – Save The Children á Íslandi, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Jónína Björg Halldórsdóttir frá ungmennaráði SAFT og Christine Grahn, framkvæmdastjóri opinberrar stefnu Facebook á Norðurlöndunum. Á myndina vantar Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT og Ívar Scram, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum sem forfallaðist en sendi inn efni á fundinn.

Verkefni SAFT neteinelti og Ekkert hatur! vekja athygli erlendis

SAFT í útrás: Verkefni SAFT neteinelti og Ekkert hatur! vekja athygli erlendis. Síðustu daga hefur SAFT verið að kynna verkefnin á ýmsum stöðum í Grikklandi í samstarfi við Safer Internet Centre Greece. Aðferðafræði verkefnisins hér heima vekur mikla athygli, m.a. áherslan á þátttöku ungmennaráðs í gerð og miðlun efnis. SAFT hefur einnig verið boðið að taka þátt í nýju Evrópuverkefni um hatursorðræðu og mannréttindi í Evrópu. Grikkir leiða verkefnið, en meðal annarra þátttökuþjóða eru Tékkland, Slóvenía og Rúmenía. Hlutverk SAFT verður að miðla af reynslu við gerð kennsluefnis, gera samantekt á rannsóknum á hatursorðræðu í Evrópu og gerð sameiginlegrar rannsóknaráætlunar um hatursorðræðu.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2016

SID 2016

Undirritun samstarfssamnings við 3 ráðuneyti

Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Rauði kross Íslands, Ríkislögreglustjóri og Barnaheill – Save the Children á Íslandi skrifuðu í dag undir samning við þrjú ráðuneyti mennta- og menningarmála-, innanríkis- og velferðarmála um stuðning við starfsemi SAFT verkefnisins til ársloka 2016. Samningurinn var undirritaður í Sjálandsskóla í Garðabæ, miðvikudaginn 3. júní 2015. Heimili og skóli munu stýra samstarfinu en samtökin hafa leitt verkefnið frá árinu 2004.

Mynd 2

Samningurinn snýr að rekstri SAFT verkefnisins á Íslandi en markmið og viðfangsefni SAFT er að reka vakningarátak og fræðslu um örugga og jákvæða notkun netsins meðal barna og ungmenna, foreldra, kennara, fjölmiðla og þeirra sem starfa við upplýsingatækni. Jafnframt að berjast gegn ólöglegu efni á netinu og að veita börnum og ungmennum aðstoð í gegnum hjálparlínu. Verkefnið er unnið í miklu samstarfi við Norðurlöndin og er einnig starfrækt sem hluti af netöryggisþætti samgönguáætlunar Evrópusambandsins sem nær til allra landa á evrópska efnahagssvæðinu. Þrjú verkefni sameinast í SAFT: hjálparlína, ábendingalína og vakningarátak.

Öflugt starf er unnið á vegum SAFT á sviði forvarna og fræðslu og kannanir sýna fram á góðan árangur verkefnisins á Íslandi og aukna vitundarvakningu um öryggi í netnotkun. Ungmennaráð SAFT hefur einnig vakið athygli fyrir vasklega framgöngu, meðal annars í jafningjafræðslu um land allt. Á þennan hátt hefur SAFT-verkefnið haft frumkvæði að því að mynda samráðsvettvang um netið á Íslandi.

Mynd 3

Meðal helstu verkefna SAFT sem unnin verða á næsta verktímabili eru:
• Ný SAFT könnun þar sem lögð er áhersla á að kortleggja netnotkun barna og unglinga, þ.m.t. notkun spjaldtölva og farsíma. Slík könnun var fyrst framkvæmd árið 2003, svo aftur 2007, 2009 og 2013.
• Vinna og kynna kennsluefni þar sem fjallað er um rafrænt einelti og ábyrga og jákvæða notkun netsins.
• Vinna kennsluefni og heilræði til uppalenda tengd hatursorðræðu á netinu í samstarfi við önnur Norðurlönd. Einnig mun SAFT útbúa kennsluefni og heilræði til uppalenda er varða miðlalæsi í norrænu samstarfi.
• Ungmennaráð mun áfram sinna jafningjafræðslu um land allt og öflugt fyrirlestrarteymi SAFT tekur að sér að halda fræðsluerindi fyrir foreldra, kennara skólastjórnendur og aðra.
• Áfram verður markvisst unnið að því að kynna ábendingahnapp/ábendingalínu og tryggja þannig að allir landsmenn þekki með hvaða hætti er hægt að tilkynna óviðeigandi og ólöglegt efni á netinu. Barnaheill og Ríkislögreglustjóri veita þessum verkhluta forstöðu.
• Ráðgjafarlína verkefnisins verður opin alla daga vikunnar og allan sólarhringinn en það er nú mögulegt með þátttöku sjálfboðaliða hjálparlínu 1717 hjá Rauða krossinum.
• Fram til þessa hefur verkefnið árlega dreift um land allt fræðsluefni á öll þrjú stig grunnskóla, án endurgjalds, og mun sú vinna halda áfram.

IMG_2691

Við sem stöndum að SAFT verkefninu fögnum þessum samningi og væntum ánægju og árangurs af þessu víðtæka og metnaðarfulla samstarfi stjórnvalda og grasrótarinnar. Nánari upplýsingar má finna á vef SAFT: www.saft.is

Tölvuhundurinn Embla

e2Velkomin í Netbæ! Netbær er lauslega byggður á Reykjavík og er heimili Tölvuhundsins Emblu og Kjærnested fjölskyldunnar. Rétt eins og Reykjavík er Netbær líflegur og tæknivæddur staður en næstum allir íbúarnir tengjast nánum böndum á netinu. Kostir þess að búa í Netbæ eru fjölmargir en allir sem þar eiga heima vita um mikilvægi nethreinlætis, þar sem sumir á netinu hafa illt í huga.Nethreinlæti er hugtak sem nær yfir þau skref sem einstaklingurinn þarf að taka til þess að tryggja öryggi sitt á netinu. Sem nemandi í Netbæ munt þú, ásamt Emblu og fjölskyldu hennar, fræðast um öryggi á netinu á sex námskeiðum. Hvert námskeið er sérsniðið að sérstökum aldurshópi (frá 5 – 20 ára) og tekur fyrir mál sem börn og ungmenni á þeim aldri kljást við á netinu.

Lífið er læk – Morgunverðarfundur Advania föstudaginn 13. febrúar

Advania stendur fyrir áhugaverðum morgunverðarfundi í fyrramálið sem ber yfirskriftina Lífið er læk en þar verður fjallað um áhrfi mikillar notkunar á samfélagsmiðlum meðal barna og ungmenna. Aðgangur er ókeypis en skráning er nauðsynleg. Sjá hér: https://www.advania.is/um-advania/vidburdir/vidburdur/2015/02/13/Lifid-er-laek

Dagskrá:
08:30
Advania býður góðan dag
Elísabet Sveinsdóttir, markaðsstjóri Advania
08:40
„Ég er bara í símanum …”
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla
09:00
Kennum börnunum okkar umferðarreglurnar á netinu
Hermann Jónsson, faðir og skólastjóri Advania skólans
09:20
Hvað eru börnin okkar að gera á þessu Interneti?
Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2015

Einblodungur.ai

 

 

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn verður haldinn hátíðlegur í tólfta sinn í dag 10. febrúar. Þemað í ár er „Gerum netið betra saman ” og munu Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða og yfir 100 þjóða um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag.

Í tilefni dagsins vekur SAFT athygli á nýju fræðsluefni og hvetur alla skóla landsins til að fjalla um netöryggi þennan dag og nýta það efni sem til er.

Meðal nýs efnis má nefna:

  • Gagnvirkt efni um netöryggi fyrir yngsta-, mið og elsta stig grunnskóla
  • Upplýsingahefti fyrir foreldra um börn og miðlanotkun
  • Námsefni um hatursorðræðu á netinu
  • Ný viðmið fyrir skóla um notkun snjalltækja
  • Upplýsingarit um samfélagsmiðla
  • Gagnvirkt próf tengt myndinni Stattu með þér! þar sem fjallað er m.a. um netið og birtingamyndir kynjanna, klámvæðingu og að setja mörk
  • Námsefni tengt áreiti á netinu, miðlalæsi, tjáningarfrelsi, meiðyrðum, einelti og fordómum

EKKERT HATUR – Instagram leikur

Ekkert hatur verkefnið stendur fyrir jafnrétti, virðingu og mannréttindum og fjölbreytileika og því er beint gegn einelti, hatursáróðri, kynþáttafordómum og mismunun á netinu.

Taktu þátt í Instagram leik Ekkert hatur verkefnisins og þú gætir átt möguleika á að vinna snjallsíma frá SAMSUNG, flott heyrnatól og fleira.

Það eina sem þú þarft að gera er að:

– taka mynd sem tengist verkefninu á einhvern hátt
– setja myndina inn á Instagram
– tagga #Ekkerthatur
og þú ert komin(n) í pottinn

#ekkerthatur

insta2

Ekkert hatur – Áskorun til fjölmiðla og almennings

Ungmennaráð SAFT og SAMFÉS skora á fjölmiðla sem hafa athugasemdakerfi á síðum sínum að hvetja notendur til ábyrgrar notkunar þeirra. Það má m.a. gera með því að hafa eftirfarandi setningar áberandi í athugasemdakerfinu.

1. „Það sem þú gerir á netinu endurspeglar hver þú ert. Hugsaðu áður en þú setur á netið. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

2. „Hugsaðu áður en þú deilir. Gjörðir á netinu hafa afleiðingar á raunverulegt fólk. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

3. „Enginn má birta meiðandi myndir eða ummæli um aðra. Það sem birt er á netinu verður ekki tekið til baka. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

4. „Hugsaðu áður þú birtir. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

5. „Það sem þú gerir á netinu getur komið í bakið á þér síðar. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

Ekkert hatur - krakkar

Setningarnar eru samdar í tengslum við verkefnið Ekkert hatur –orðum fylgir ábyrgð, átaksverkefni gegn hatursorðræðu á netinu sem ungmennin hafa tekið virkan þátt í. Hópur stofnana og samtaka á Íslandi stendur á bak við átakið og er það hluti af verkefni Evrópuráðsins sem ber heitið No Hate Speech Movement (www.nohatespeechmovement.org). Fyrir hönd Menntamálaráðuneytisins annast eftirtaldiraðilar útfærslu verkefnisins á Íslandi: SAFT, Heimili og skóli – Landssamtök foreldra, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Æskulýðsvettvangurinn.

Hópurinn fundaði þann 27. maí sl. ásamt fulltrúum ungmennaráðanna og formönnum æskulýðssamtaka og samtökum sem vinna með börnum og ungmennum. Á fundinum var verkefnið kynnt og ungmennin sögðu frá vinnu sinni í tengslum við verkefnið. Aðstandendur verkefnisins hvetja alla til þess að kynna sér setningarnar og nota þær þegar þeir verða varir við ljótt orðbragð, einelti eða hatursáróður á netinu. Almenningur getur lagt verkefninu lið með því að taka þátt í samfélagsmiðlaherferðinni Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð!

 

ÍSLENSKI VEFURINN PAXEL123.COM VALINN BESTI VEFURINN Í EVRÓPU FYRIR BÖRN


Þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Fréttatilkynning 

P024961001402-110046

íSLENSKi vefurinn PAXEL123.com valinn BESTI VEFURINN Í EVRÓPU FYRIR BÖRN 

Íslenski vefurinn PAXEL123.com hlaut í dag verðlaun í Evrópukeppni um besta netefnið fyrir börn við hátíðlega athöfn í Brussel. Verðlaunin voru veitt á Alþjóðlega netöryggisdeginum sem fagnað er um heim allan. Insafe, samstarfsnet Evrópuþjóða sem taka þátt í netöryggisáætlun ESB, og Evrópska skólanetverkið stóðu að samkeppninni. PAXEL123.com var valinn besti vefurinn í flokki tilnefninga frá fullorðnum áhugamönnum. Vefurinn PAXEL123.com var tilnefndur ásamt vefnum GRALLARAR.is í Evrópusamkeppnina en báðir höfðu sigrað í landskeppni Íslands um besta netefnið 2013.

Markmið keppninnar er að vekja athygli á gæðaefni sem til er fyrir börn á aldrinum 4 til 12 ára auk þess að hvetja til framleiðslu á nýju efni sem veitir ungu fólki tækifæri til að fræðast, leika sér, uppgötva og finna upp eitthvað nýtt. Verðlaun fyrir besta netefnið fyrir ungmenni voru veitt í fjórum flokkum.

Í Evrópukeppninni voru veitt verðlaun í fjórum mismunandi flokkum: 1) Fullorðnir fagmenn; 2) Fullorðnir áhugamenn; 3) Einstaklingar á meðal ungmenna (allt að 3 ungmenni) og 4) Bekkir í skólum/hópar ungs fólks (a.m.k. 4 einstaklingar). Þátttakendur gátu sent inn hvers kyns netefni í keppnina – allt frá vefsíðum, bloggi og hreyfimyndefni til smáforrita („appa“) og leikja – en efnið varð að vera sérstaklega ætlað börnum eða ungmennum. Samkeppnin stóð yfir til ársloka 2013 og þurfti dómnefnd að meta yfir 1.100 tilnefningar frá 26 löndum.

PAXEL123.com vefurinn er ætlaður nemendum á leik- og grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í því að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði. Aðgangur að vefnum er ókeypis, hann inniheldur engar auglýsingar, engrar skráningar er krafist og engum persónulegum upplýsingum er safnað um notendur. Markmiðið með PAXEL123.com er að örva læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum. Þá fjallar einn leikur um örugga netnotkun. Leikirnir á PAXEL123.com örva formskynjun, talnaskilning og rökhugsun auk þess sem þar er að finna rímleiki og stafarugl. Leikirnir henta einnig sem ítarefni við sérkennslu þ.m.t. að vinna með börnum af erlendum uppruna.

Hugmyndin að vefnum er sprottin út frá vinnu Önnu Margrétar Ólafsdóttur leikskólastjóra í Nóaborg í Reykjavík en leikskólinn hefur í rúm tíu ár haft stærðfræði og ritmál sem leiðarljós í vinnu með leikskólabörnum. Mikið af leikefni barnanna sem tengist þessum leiðarljósum er heimagert,  s.s. ýmis spil og leikir. Það sem hefur verið vinsælast hjá börnunum þennan tíma hefur nú verið útfært í tölvuleiki á PAXEL123 auk þess sem nýir leikir bætast í hópinn.

Nánari upplýsingar um PAXEL123.com: