Fræðsla

Fyrirlestrar og námskeið um netið og nýmiðla

Heimili og skóli og SAFT, vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi, gefa út fjölbreytt námsefni,  bjóða upp á fjölda fyrirlestra og námskeið um netið og nýmiðla fyrir nemendur, foreldrafélög, skólaráð, kennara og félagasamtök.

 

1) Netið og samfélagsmiðlar. Fyrirlesari: Bryndís Jónsdóttir, verkefnastjóri SAFT. Markhópur: Nemendur, foreldrafélög, skólaráð, kennarar og skólastjórnendur. Netið hefur opnað fyrir ótal möguleika sem notendur geta nýtt sér á uppbyggilegan hátt. En ótal dæmi um misnotkun og óvarlega netnotkun sýna fram á nauðsyn þess að við temjum okkur og börnum okkar snemma að nota netið á uppbyggilegan hátt. Rannsóknir sýna að á grunnskólaaldri er netnotkun orðin hluti af daglegu lífi. Mörg börn eiga snjalltæki sem býður þeim upp á að vera nettengd allan sólarhringinn alla daga vikunnar auk þess sem félagslíf barna fer að stórum hluta fram á netinu. Hins vegar fá þau mis mikla leiðsögn heima fyrir um hvernig umgangast beri netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Mörg börn eru þ.a.l. ekki nógu vel upplýst um ýmsar hættur sem steðja að þeim. á þar helst nefna tælingu, óvarlegar myndbirtingar, rafrænt einelti og netfíkn svo fátt eitt sé nefnt. Því miður er raunin sú að á netinu fyrirfinnst fólks sem villir á sér heimildir í þeim tilgangi að komast í tæri við börn á þessum aldri. Í fræðsluerindinu er farið yfir einkenni tælingarmála og hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga, hvað sé hægt að gera ef grunur vaknar um tilraun til tælingar og hvert sé hægt að leita. Eins fá börn og foreldrar fræðslu um meðferð persónuupplýsinga, alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu,  farið verður yfir slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem hvatt er til jákvæðrar og ábyrgrar netnotkunar. Fræðslan er lifandi og hvatt er til þátttöku nemenda og foreldra. Stuðst er við stutt myndbönd sem að lýsa ýmsum klemmum sem komið geta upp með óvarlegri netnotkun. Farið verður yfir helstu rannsóknir og hvernig netnotkun hefur verði að þróast síðustu ár. Farið veður yfir helstu heilræði í rafrænu uppeldi  og yfirlit gefið yfir aðgengilegt kennsluefni um netnotkun og einfaldar öryggisstillingar.

pinfo

2) Unglingarnir og netið. Fyrirlesari: Óli Örn Atlason, uppeldis- og menntunarfræðingur, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Fönix. Markhópur: Nemendur (13-16 ára), foreldrafélög, kennarar og skólastjórnendur (námsráðgjafar og skólahjúkrunarfræðingar). Hvað eru unglingarnir að gera á netinu og á samfélagsmiðlunum? Hvernig nota þau netið – bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt? Unglingarnir eru fljótir að tileinka sér nýja tækni hvort heldur í tölvum eða snjallsímum og leiða hvort annað áfram í notkun þessara miðla oft án afskipta foreldra eða fullorðinna. Foreldrar og fullorðnir eru ekki í stakk búin til að leiðbeina unglingunum vegna kunnáttuleysis og tala því ekki sama tungumál þegar eitthvað kemur uppá.  Í þessari fræðslu er farið er yfir helstu samfélagsmiðla – Facebook, Snapchat, Instagram, nafnlausu spjöllin á borð við Ask.fm, hvað unglingarnir setja inn í gegnum þessa miðla og í hvaða tilgangi.  Farið er ítarlega ofan í kjölin á því hvernig er að vera unglingur í dag og hversu stór hluti af sjálfsmynd unglingsins verður til á samfélagsmiðlum. Farið er í hvað hægt sé að gera og hvernig er hægt að ræða þessa hluti í skólanum og heima án þess að það springi allt í loft upp… eða þú veist! Óli hefur unnið náið með unglingum undanfarin 5 ár í félagsmiðstöð og þekkir vel hvernig unglingarnir nota netið og snallsímana.  Unglingarnir misstíga sig á samfélagsmiðlunum – senda myndir af sér sem fer á aðra (fleiri) staði en þau ætluðu, segja eitthvað sem þau meina ekki endilega og hafa fáa sem skilja hvað þau eru að ganga í gegnum. Þessi fyrirlestur brúar bilið milli unglinga og foreldra og/eða skóla þannig að allir séu að tala sama tungumál til að geta rætt þessa hluti sem unglingarnir eru að ganga í gegnum.  Þetta er allt sem þú vildir vita um unglinginn þinn og svo miklu meira. Verð, sjá töflu hér neðar.

 

Sexting

3) Samskipti foreldra og barna vegna netnotkunar. Fyrirlesari: Ólína Freysteinsdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur. Markhópur: Foreldrar. Á hverjum tíma þurfa fjölskyldur að laga sig að breytingum, hvort er vegna breyttra atvinnuhátta, tækninýjunga, viðmiða eða gilda. Sú bylting sem varð í samskiptaháttum fólks með tilkomu internetsins hefur fært fjölskyldum samtímans nýja áskorun.  Netnotkun ein vinsælasta tómstundariðkun barna og unglinga í vestrænum ríkjum og notkuninni fylgja bæði kostir og gallar. Niðurstöðurnar rannsókna benda til þess að unglingar sem glíma við vanda vegna netávana þurfi á því að halda að foreldrar setji þeim skýr mörk og jafnframt að unglingarnir virðast sætta sig við þau mörk sem foreldrar þeirra setja þeim. Þeir unglingar sem lýsa óskýrum mörkum foreldra virðast eiga í meiri erfiðleikum og í lýsingum þeirra koma fram alvarlegri einkenni netávana.Hér er beint sjónum að fjölskyldunni og mikilvægi hennar og ábyrgð á netnotkun. Einnig því mikilvæga sjónarhorns að líta verði til hvers einstaklings fyrir sig og byggja hann upp í heilbrigðri notkun netsins. Þá er mikilvægt að líta ekki á verkefnið sem vandamál heldur áskorun. Farið verður yfir gagnleg verkfæri í samskiptum og önnur sjónarhorn sett á umræðuna um netið sem verkefni fjölskyldna.

parents

4) Meir en 1000 orð: Það sem þú þarft að vita um #selfie og #sexting áður en það er of seint. Markhópur: Nemendur (13+), foreldrafélög, skólaráð, kennarar og skólastjórnendur. Á síðasta ári biðlaði íslensk móðir til foreldra í sama bæjarfélagi að eyða nektarmynd af þrettán ára dóttur hennar úr símum og tölvum barna sinna. Saga hennar er fjarri því að vera einsdæmi. Nektarmyndir sem settar eru í leyfisleysi á netið eru dauðans alvara og hefur nú þegar kostað nokkur mannslíf sökum eineltis og örvæntingar sem fylgdi í kjölfarið. Vandinn mun einungis vaxa nema tekið sé þétt í taumana. Nýleg rannsókn sýnir að meirihluti unglinga tekur þátt í sexting (að senda og móttaka kynferðisleg smáskilaboð, oft nektarmyndir). Þótt slíkar sendingar útheimti trúnað er þetta mikið hættuspil, því rannsóknin sýndi líka að 26% áframsendi skilaboðin á þriðja aðila. Hér þarf öfluga fræðslu um virðingu og ábyrga hegðun á tímum snjallsíma, leitarvéla og klámvæðingar áður en það er of seint – enda gleymir Netið engu. Farið verður yfir hugtök, staðreyndir og rannsóknir um hvernig tækni er að móta hegðun og samskipti. Gefin eru heilræði og mælt með góðu lesefni um þessi mál.

 

selfie

 

5) Jákvæð og örugg netnotkun barna og unglinga. Fyrirlesari: Hafþór Barði Birgisson, tómstunda- og félagsmálafræðingur. Markhópur: Nemendur, foreldrafélög, skólaráð, kennarar og skólastjórnendur. Efnistök: Internetið er frábær upplýsingaveita og tæki til samskipta en þar felast einnig ýmsar hættur sem mikilvægt er fyrir foreldra að þekkja og gera sér grein fyrir. Til að foreldrar geti talað við börnin sín og leiðbeint þeim um öryggi og góða hegðun þurfa þeir að þekka það umhverfi sem þeir eru í dags daglega. Leiðbeiningar um “umferðarreglur” á netinu eru því orðinn einskonar hluti af uppeldishlutverkinu. Fjallað er um netið og nýmiðla og mikilvægi þeirra í lífi barna og unglinga. Rætt er m.a. um a) helstu notkunarleiðir og venjur barna og unglinga, b) hvað nauðsynlegt er að hafa í huga til að netnotkun verði örugg og ánægjuleg, c) hvernig foreldrar og kennarar geta rætt um jákvæða og örugga netnotkun við börn og unglinga, og d) sýnikennsla á nokkrum af þeim “verkfæra” sem ungt fólk notar. Á fyrirlestrinum er einnig farið yfir siðferði á netinu, rafrænt einelti, netboðorðin, félagsnetsíður, friðhelgi einkalífsins, netvini, nettælingu og ræða aðeins um kynslóðabilið.

kidComp

 

6) Skjátími og “Netfíkn”. Markhópur: Nemendur, foreldrafélög, skólaráð, kennarar og skólastjórnendur. Á síðustu árum hefur athygli fólks um víða veröld í sífellt auknum mæli beinst að ofnotkun fólks á netinu svo kölluðum skjátíma. Í þessu erindi er fjallað hvernig megi meta gæði skjátíma og hvað sé eðlilegur skjátími fyrir mismunandi aldurshópa. Einnig er fjallað um hver einkenni ofnotkunar eru, hvað slík notkun getur haft í för með sér og hvað foreldrar og fagfólk getur gert til að fyrirbyggja vandann þegar hægt er og takast á við hann þegar svo ber undir.

 

teenagers-addicted-to-computer-games-2

 

7) Bara 5 mínútur í viðbót. Heimildarmyndin “Bara 5 mínútur í viðbót” fjallar um tölvuleikjafíkn ungfólks (þó aðalega drengja). Sýnt er framá hvernig fíknin hefur áhrif á þeirra nánasta umhverfi, félagsleganþroska og almennt líf þriggja drengja. Talað er við sérfræðinga s.s. sálfræðing, tölvufræðing, yfirlögregluþjón, sem og þrjá drengi á mismunandi aldri sem allir eiga það sameiginlegt að vera háðir tölvuleikjum.

 

Skýrslur og rannsóknir

Lokaskýrsla SAFT 2004-2006   Samfélag, fjölskylda og tækni, Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um netöryggi / Safer Internet in Iceland, The Safer Internet Action Plan. SAFT October 2006.

Lokaskýrsla SAFT 2006-2008_ Samfélag, fjölskylda og tækni, Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um netöryggi / Safer Internet in Iceland, The Safer Internet Action Plan. SAFT October 2008.

Lokaskýrlsa SAFT 2010-2012 Samfélag, fjölskylda og tækni, Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um netöryggi / Safer Internet in Iceland, The Safer Internet Action Plan. SAFT October 2012.

Lokaskýrsla SAFT 2012-2013 Samfélag, fjölskylda og tækni, Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um netöryggi / Safer Internet in Iceland, The Safer Internet Action Plan. SAFT October 2012.

Lokaskýrsla SAFT 2012-2014 Samfélag, fjölskylda og tækni, Aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um netöryggi / Safer Internet in Iceland, The Safer Internet Action Plan. SAFT December 2014.

SAFT könnun 2009 – Foreldrahluti

SAFT könnun 2009 – Barnahluti

SAFT_könnun 2013 Foreldrahluti

SAFT könnun 2013 barnahluti

BA verkefni (2008)Internetnotkun íslenskra háskólanema athugun á hugtakinu internetfíkn og tengsl þess við sálrænar breytur. Anna Lísa Pétursdóttir og Sóldís Lilja Benjamínsdóttir. BA ritgerð í Sálfræði. Háskóli Íslands.