ÍSLENSKI VEFURINN PAXEL123.COM VALINN BESTI VEFURINN Í EVRÓPU FYRIR BÖRN


Þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Fréttatilkynning 

P024961001402-110046

íSLENSKi vefurinn PAXEL123.com valinn BESTI VEFURINN Í EVRÓPU FYRIR BÖRN 

Íslenski vefurinn PAXEL123.com hlaut í dag verðlaun í Evrópukeppni um besta netefnið fyrir börn við hátíðlega athöfn í Brussel. Verðlaunin voru veitt á Alþjóðlega netöryggisdeginum sem fagnað er um heim allan. Insafe, samstarfsnet Evrópuþjóða sem taka þátt í netöryggisáætlun ESB, og Evrópska skólanetverkið stóðu að samkeppninni. PAXEL123.com var valinn besti vefurinn í flokki tilnefninga frá fullorðnum áhugamönnum. Vefurinn PAXEL123.com var tilnefndur ásamt vefnum GRALLARAR.is í Evrópusamkeppnina en báðir höfðu sigrað í landskeppni Íslands um besta netefnið 2013.

Markmið keppninnar er að vekja athygli á gæðaefni sem til er fyrir börn á aldrinum 4 til 12 ára auk þess að hvetja til framleiðslu á nýju efni sem veitir ungu fólki tækifæri til að fræðast, leika sér, uppgötva og finna upp eitthvað nýtt. Verðlaun fyrir besta netefnið fyrir ungmenni voru veitt í fjórum flokkum.

Í Evrópukeppninni voru veitt verðlaun í fjórum mismunandi flokkum: 1) Fullorðnir fagmenn; 2) Fullorðnir áhugamenn; 3) Einstaklingar á meðal ungmenna (allt að 3 ungmenni) og 4) Bekkir í skólum/hópar ungs fólks (a.m.k. 4 einstaklingar). Þátttakendur gátu sent inn hvers kyns netefni í keppnina – allt frá vefsíðum, bloggi og hreyfimyndefni til smáforrita („appa“) og leikja – en efnið varð að vera sérstaklega ætlað börnum eða ungmennum. Samkeppnin stóð yfir til ársloka 2013 og þurfti dómnefnd að meta yfir 1.100 tilnefningar frá 26 löndum.

PAXEL123.com vefurinn er ætlaður nemendum á leik- og grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í því að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði. Aðgangur að vefnum er ókeypis, hann inniheldur engar auglýsingar, engrar skráningar er krafist og engum persónulegum upplýsingum er safnað um notendur. Markmiðið með PAXEL123.com er að örva læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum. Þá fjallar einn leikur um örugga netnotkun. Leikirnir á PAXEL123.com örva formskynjun, talnaskilning og rökhugsun auk þess sem þar er að finna rímleiki og stafarugl. Leikirnir henta einnig sem ítarefni við sérkennslu þ.m.t. að vinna með börnum af erlendum uppruna.

Hugmyndin að vefnum er sprottin út frá vinnu Önnu Margrétar Ólafsdóttur leikskólastjóra í Nóaborg í Reykjavík en leikskólinn hefur í rúm tíu ár haft stærðfræði og ritmál sem leiðarljós í vinnu með leikskólabörnum. Mikið af leikefni barnanna sem tengist þessum leiðarljósum er heimagert,  s.s. ýmis spil og leikir. Það sem hefur verið vinsælast hjá börnunum þennan tíma hefur nú verið útfært í tölvuleiki á PAXEL123 auk þess sem nýir leikir bætast í hópinn.

Nánari upplýsingar um PAXEL123.com: